sigrun.png
 
Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður:

„Við lögðum upp með breytta orðræðu og aukið samtal við upphaf verkefna, samtal sem er ætlað að vara allt frá undirbúningi til loka framkvæmda.“

Undanfarin ár hefur Landsnet verið að vinna í stórum verkefnum á Norðausturlandi og framundan er áframhaldandi vinna við styrkingu flutningskerfisins á Norðurlandi.

Aukin vigt var sett í samtal og samráð við hagaðila í takt við endurmat á stefnu og gildum fyrirtækisins þar sem lykilþættir eru gagnsæi, upplýst umræða og samráð á milli aðila.

Við lögðum upp með breytta orðræðu og aukið samtal við upphaf verkefna, samtal sem er ætlað að vara allt frá undirbúningi til loka framkvæmda. Við einblíndum í byrjun á stærri svæðisbundin verkefni en til lengri tíma viljum við auka samráð með margs konar hætti á sem flestum sviðum.

Samráðshópar eru komnir af stað í þremur verkefnum, Kröflulínu 3, Hólasandslínu 3 og Suðurnesjalínu 2. Þar koma helstu hagsmunaaðilar fyrir utan landeigendur saman með reglulegu millibili og fara í sameiginlegar skoðunar- og kynnisferðir og skapa traust á sameiginlegum vettvangi.

Þannig lærum við og þróumst í betri átt og náum á endanum sátt eða málamiðlun sem flestum líkar.

Umhverfismál skipta okkur hjá Landsneti miklu máli og við höfum lagt okkar af mörkum þegar kemur að umræðunni um orkuskiptin. Þó er ljóst að lítill árangur næst í þessum efnum nema flutningskerfi raforku verði eflt.

Ég er mjög stolt af því að við fengum á síðasta ári viðurkenningu fyrir framtak ársins í umhverfismálum fyrir snjallnet á Austurlandi. Það fól í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Þetta verkefni er dæmi um einstaka samvinnu fólksins innan Landsnets sem hefur smíðað snjalllausnirnar og byggt þær á skapandi hugsun og verkfræðilegu hyggjuviti. Afraksturinn er betri árangur í rekstri fyrirtækjanna, betri nýting orkunnar og mikill umhverfislegur ávinningur til samfélagsins – til okkar allra.

 Við hjá Landsneti horfum björtum augum fram á við og erum tilbúin í þá vegferð sem er framundan – með ykkur öllum, þannig náum við árangri og þannig komust við inn í rafræna framtíð – framtíðin er núna og við erum tilbúin að taka þátt í henni.

Hjá Landsneti vinnur samhentur og öflugur hópur starfsfólks störf sín af alúð og með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Fyrir það vil ég færa því bestu þakkir.

 


gik600400zoom.png

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri:

„Flutningur á raforku hefur undanfarin ár aukist ár frá ári og síðasta var þar engin undanteking. Í rafvæddri framtíð reiðir fólk sig í æ meira mæli á örugga raforku og framundan eru miklar áskoranir

Árið 2017 var eitt mesta framkvæmdaár í sögu okkar hjá Landsneti. Í fyrsta skipti í mörg ár lauk framkvæmdum við stórar loftlínur þegar Þeistareykjalína 1 og Kröflulína 4 voru teknar í notkun. Það er stórt verkefni sem búið var að vera í undirbúningi og vinnslu í mörg ár. Öll framkvæmdin var til fyrirmyndar og fengum við hrós fyrir frágang á vettvangi slóða og hönnun mannvirkjanna.

Það að nota hreint íslenskt rafmagn í stað mengandi orkugjafa gerir raforkumál að loftslagsmálum. Fyrir framtíðina skipta loftslagsmálin okkur miklu máli og því var mjög ánægjulegt að við fengum viðurkenningu frá Samtökum atvinnulífsins sem framtak ársins á sviði loftslagsmála fyrir snjallnet á Austurlandi.

Á árinu fórum við í eina flóknustu og dýrustu viðgerð sem við höfum staðið frammi fyrir þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði, viðgerð sem reyndi á, gekk vel og sýndi hvað við búum yfir mikilli þekkingu og mannauði hér hjá Landsneti.

Framundan eru nýir tímar – spennandi tímar. Á tímum sjálfvirknivæðingar og hraðra tæknibreytinga breytist allt umhverfi okkar gríðarlega hratt. Fjöldi minni orkuframleiðenda og nýir notendur eins og gagnaver gera kröfu um hraða málsmeðferð og ákvarðanatöku. Upplýsingagjöf er meiri en áður. Við eru tilbúin í þá vegferð og höfum m.a. lagt mikla vinnu í að efla samtalið með stofnun samráðsvettvangs, verkefnaráða þar sem helstu hagsmunaaðilar koma saman með reglulegu millibili. Markmiðið með stofnun þessa vettvangs er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum og bæta útfærslur flutningsmannvirkjana.

Stöðugleiki komst á reksturinn sem var í takt við áætlanir hjá okkur og það er ánægjulegt að sjá að sú vinna sem við höfum verið í skilar stöðugum rekstri í stað mikilla sveifla sem áður voru. Endurfjármögnun langtímalána á hagstæðum kjörum, færsla yfir í bandaríkjadali ásamt endurbótum á ferlum skapaði það jafnvægi í rekstri sem nauðsynlegt er fyrir fyrirtækið til að geta mætt þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er.

Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru áhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstrinum. Þetta ár er eitt af stærstu framkvæmdaárum fyrirtækisins og er ánægjulegt að sjá að framkvæmdakostnaðurinn var að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir miklar tafir í stórum verkefnum. Áfram var greitt niður lán frá móðurfélaginu til að draga úr áhættu í endurfjármögnun vegna gjalddaga ársins 2020.

Flutningur á raforku hefur undanfarin ár aukist ár frá ári og síðasta ár var þar engin undantekning. Í rafvæddri framtíð reiðir fólk sig í æ meira mæli á örugga raforku og framundan eru miklar áskoranir við að tryggja aðgang allra landsmanna að nægu öruggu rafmagni, spara orku og byggja kerfi sem nýtir betur núverandi virkjanir. Landsnet er vel í stakk búið til að takast á við þær.