" Stjórnskipulagið styður við hlutverk, stefnu og meginstarfsemi fyrirtækisins á skýran og markvissan hátt sem og þau loforð sem Landsnet gefur viðskiptavinum og samfélaginu."

Stjórn Landsnets skipa Sigrún Björk Jakobsdóttir ráðgjafi, Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice, og Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika.

Varamenn eru Svava Bjarnadóttir, fram­kvæmda­stjóri og eig­andi Kapitula ehf., og Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmaður en hann gekk úr stjórninni í lok árs 2017.

 

 
 • Formaður stjórnar

  Sigrún Björk Jakobsdóttir

  Sigrún Björk var kosin formaður stjórnar á aðalfundi 7. apríl 2016. Hún hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka, stofnana og nefnda og hefur víðtæka reynslu af vettvangi ferðaþjónustu og sveitarstjórnarmála.
 • Meðstjórnandi

  Ómar Benediktsson

  Ómar var fyrst kjörinn í stjórn Landsnets 29. mars 2012. Ómar hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, bæði innlendra og erlendra, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði heima og erlendis.
 • Meðstjórnandi

  Svana Helen Björnsdóttir

  Svana var fyrst kjörin í stjórn Landsnets 31. mars 2009. Svana hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

 Framkvæmdastjórn 

" Við byggjum flutningskerfi rafokru til framtíðar og tryggjum jafnt aðgengi íbúa að öruggu rafmagni með skilvirkan rekstur og fjárfestingar að leiðarljósi."  

Stjórn Landsnets ræður forstjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins. Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og framkvæmdastjórar.

 • Guðmundur Ingi Ásmundsson

  Forstjóri

  Guðmundur Ingi Ásmundsson er forstjóri Landsnets. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði árið 1980 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 1982. Guðmundur Ingi starfaði hjá Landsvirkjun í 23 ár, fyrst sem verkfræðingur í rekstrardeild og síðar yfirverkfræðingur og deildarstjóri kerfisdeildar frá árinu 1993. Hann varð kerfisstjóri Landsnets þegar félagið tók til starfa í ársbyrjun 2005, síðar framkvæmdastjóri kerfisstjórnar og aðstoðarforstjóri fyrirtækisins frá ársbyrjun 2008, áður en hann tók við stöðu forstjóra Landsnets 1. janúar 2015.
 • Einar S. Einarsson

  Framkvæmdastjóri

  Stjórnunarsvið veitir þjónustu þvert á fyrirtækið og sinnir viðskiptavinum Landsnets. Sviðið er vettvangur sameiginlegrar þjónustu innan Landsnets, vinnur að verkefnum sem stuðla að aukinni samlegð, skilvirkni og samvinnu, heldur utan um samfélagsábyrgð og sinnir ytri og innri samskiptum.
 • Guðlaug Sigurðardóttir

  Framkvæmdastjóri og staðgengill forstjóra

  Fjármálasvið ber ábyrgð á fjármálum Landsnets, reikningshaldi, fjárstýringu, innkaupum, stjórnendaupplýsingum, tekjumörkum, áætlanagerð, gerð spálíkana og áhættustjórnun félagsins. Hagrænar greiningar sem styðja við tekju- og gjaldskrárgreiningar, áreiðanleika spálíkana, eignastýringu fyrirtækisins og mat á fjárfestinga- og rekstrarákvörðunum heyra einnig undir sviðið sem og rekstur fasteigna og mötuneytis.
 • Íris Baldursdóttir

  Framkvæmdastjóri

  Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á rekstri flutningskerfis Landsnets og kerfisstjórnun. Það tryggir að jafnvægi sé á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu og að nægjanlegt reiðuafl sé fyrir hendi í raforkukerfinu. Kerfisstjórnun samræmir áætlanir um rof rekstrareininga sem hafa áhrif á rekstur raforkukerfisins, stýrir kerfisuppbyggingu eftir að rekstrartruflanir hafa átt sér stað, skerðir álag hjá notendum ef þörf krefur og bregst við flutningstakmörkunum. Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á upplýsingakerfum Landsnets og er miðstöð snjallnetsvæðingar raforkukerfisins.
 • Nils Gústavsson

  Framkvæmdastjóri

  Framkvæmda- og rekstrarsvið heldur utan um og stýrir öllum framkvæmdum í flutningskerfi Landsnets, hvort sem þær eru unnar af starfsmönnum fyrirtækisins eða verktökum. Sviðið hefur einnig umsjón með viðhaldi, eftirliti og viðgerðum á flutningsvirkjum Landsnets og þar er mat á ástandi flutningskerfisins meðal lykilverkefna.
 • Sverrir Jan Norðfjörð

  Framkvæmdastjóri

  Þróunar- og tæknisvið vinnur áætlanir um uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku fyrir allar framkvæmdir á vegum Landsnets. Sviðið stýrir rannsóknum, umhverfismati og undirbúningsverkum sem nauðsynleg eru til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Innan sviðsins er tæknisetur sem undirbýr framkvæmdir og veitir tækniþjónustu þvert á svið.

Skipurit Landsnets

skipurit_2015.jpg

 

„Við erum þjónustufyrirtæki sem vinnur í takt við samfélagið og höfum sett okkur það markmið að tryggja örugga afhendingu á raforku.“

Framtíðarsýn okkar er að vera ábyrgt og framsækið þjónustufyrirtæki með öfluga liðsheild og sterka samfélagsvitund. Til að það nái fram að ganga þarf að hlúa vel að og þróa mannauðinn svo hann sé ávallt með réttu hæfnina á réttum tíma og geti tekist á við daglegar áskoranir sem og framtíðaráskoranir.

Í árslok 2017 voru stöðugildi, miðað við heilsársstörf, samtals 120, sem er sami fjöldi og var árið 2014.

Sex nýir starfsmenn bættust í hópinn á árinu og sjö hættu, þar af tveir vegna aldurs. Það er ljóst að á næstu árum verður áframhaldandi endurnýjun þar sem töluverður hluti hópsins fer að hætta sökum aldurs.

„Fyrir okkur skiptir máli að fjölga konum í orkumálum…“

Töluverð endurnýjun hefur átt sér stað á síðustu árum vegna hækkandi aldurs og er nú helmingur Landsnets með minna en sex ára starfsreynslu og þar af fjórðungur með minna en þrjú ár. Þriðjungur starfsmanna hefur starfað í sex til 20 ár og fimmtungur lengur en 21 ár. 

 

Hjá okkur starfar vel menntað fólk, fólk með mikla reynslu sem býr yfir sérhæfðri þekkingu. Menntunarstig er hátt en nærri því 70% starfshópsins eru með háskólamenntun, 26% eru með iðnmenntun og 6% með annars konar menntun. Fjölmennustu hóparnir eru með rafiðnmenntun og háskólanám á sviði verk- og tæknifræði en að öðru leyti er starfsfólkið okkar með fjölbreytta menntun og reynslu.

„Við höfum einsett okkur að vera framarlega í fræðslu og menntamálum…“

Til að ná árangri í fræðslumálum beitum við mismunandi aðferðum en ein aðaláherslan er sú að fræðslu- og menntamál séu í sífelldu umbótaferli. Við lögðum af stað með metnaðarfulla áætlun árið 2017 sem skilaði sér í verðlaunum Samtaka atvinnulífsins, „Menntasprota ársins 2018“.

„Við erum stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Hjá okkar starfar frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem vinnur að flóknum og áhugaverðum verkefnum sem lúta að þróun, uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við flytjum rafmagn alla daga og vinnum stundum við hættulegar aðstæður. Í því samhengi skiptir menntun og þjálfun miklu máli – með góðum vinnustað náum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en það er að tryggja okkur öllum rafmagnaða framtíð.“

Við lögðum mikinn metnað í að sinna fræðslu- og þjálfunarmálum á árinu og fórum í þarfagreiningu, bæði með rýnihópum starfsfólks, einstaklings- og starfsmannasamtölum.

Starfsfólk á vegum okkar kenndi á háskólastigi og í iðngreinum og hvetjum við til þess. Mikilvægt er að okkar starfsfólk geti kennt nemendum og komið á framfæri mikilvægri þekkingu sem skapast hér innanhúss. Þessi vinna starfsmanna hefur haft þau áhrif að auðveldara hefur verið að stofna til samstarfs með menntastofnunum, auk þess sem aðgengi að nemendum í sérfræðinámi er betra.

Á árinu voru reglulega haldin innanhússnámskeið sem byggðu á þarfagreiningu þjálfunar sem er reglulega framkvæmd ásamt öðrum námskeiðum sem koma upp og er beðið um með stuttum fyrirvara. Við leituðum mikið til starfsfólks okkar varðandi kennsluefni og hafa fjölmargir starfsmenn tekið þátt í innanhússfræðslu hjá okkur.

Samhliða öflugri fræðslustarfsemi hvöttum við okkar fólk til að sækja sér endurmenntun sem tengist beint störfum þess til að efla það og gera því kleift að þróast í starfi.

Nemendur og sumarstörf

„Ótrúlega skemmtilegt sumar, fjölbreytt verkefni og skemmtilegur vinnustaður…“

Við vorum í samstarfi við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík á mismunandi sviðum vegna hagnýtra verkefna og starfsnáms. Nemendur úr báðum skólum höfðu tækifæri til að vinna að lokaverkefnum hjá okkur en mikil áhersla er lögð á að verkefni þeirra séu í senn hagnýt og færi okkur, samfélaginu, háskólanum og nemandanum nýja þekkingu sem hægt er að nýta í framtíðinni. Að auki lögðum við áherslu á að bjóða háskólanemum áhugavert sumarstarf þar sem þeir fá tækifæri til að takast á við raunverkefni á sínu námssviði. Framlag nemanda hefur þannig áhrif á rekstur fyrirtækisins og hjálpar okkur að þróa áfram þau kerfi sem við vinnum með. Sumarið 2017 vorum við með 14 háskólanema í vinnu . Að auki voru ráðnir 24 framhaldsskólanemar sem vinna að ýmsum störfum en það er hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins að veita nemendum tækifæri á að starfa við áhugaverð störf á sumrin.

Vinnustaðagreining

Á árinu 2017 var ákveðið að gera vinnustaðagreiningu árlega til að geta fylgst betur með þróun mannauðsmála. Vinnustaðagreining er ítarleg greining á styrkleikum og áskorun vinnustaðarins og dregur fram þau atriði sem eru mikilvægast fyrir stjórnendur að vinna með til að skapa starfsfólki hvetjandi starfsumhverfi. Markmiðið er að draga fram helstu og mikilvægustu mál í innra umhverfi vinnustaðarins.

Starfsánægja

Á árinu 2017 bættust við tveir nýir starfsmenn á Norðurlandi og eru þeir því orðnir þrír sem sannarlega bætir þjónustuna á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði að Kröflu.

 

Endurgjöf og innleiðing "púlssamtala"

"Tókum púlsinn..."

Helsta áskorunin sem vinnustaðagreining leiddi í ljós var að endurgjöf til starfsmanna var ekki nógu góð. Því var farið af stað með umbótaverkefni sem fólst í því að breyta formi og innihaldi starfsmannasamtala og fræða og þjálfa stjórnendur og starfsfólk í samtölum. Í stað hefðbundinna samtala sem fóru fram einu sinni á ári eru samtölin nú tekin þrisvar sinnum yfir árið. Þetta eru stutt samtöl, óformleg en skýr umgjörð um þau. Þau hafa fengið viðurnefnið „púlssamtöl“ því að tekinn er púlsinn á líðan starfsmanna og ákveðnu viðfangsefni í hverju samtali.

Almennt sýna rannsóknir að þessi tegund samtala bæti til muna samskipti stjórnenda og starfsfólks og væntingar til starfsmannsins verða mun skýrari. Síðast en ekki síst auðveldi svona samtöl eftirfylgni þar sem styttra er á milli samtala.

WOW Cyclothon

Í júní tóku tíu starfsmenn þátt í hjólreiðakeppninni Wow cyclothon og hjóluðu hringinn í kringum landið, alls 1358 km.

 

Eigendur 

Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.