„Fyrir okkur eru loftslagsmál raforkumál – við ætlum að styðja nýja tækni og samkeppnisviðskipti sem eru forsendur fyrir samkeppnishæfni endurnýjanlegrar orku gangvart mengandi orkugjöfum.“

Þróun flutningskerfisins

Í þeim tilgangi að viðhalda öryggi, áreiðanleika og skilvirkni raforkuflutningskerfisins á sem hagkvæmastan hátt er mikilvægt að þróun þess haldist í hendur við þróun raforkumarkaða til framtíðar. Þar sem fjárfestingar í flutningskerfinu eru í eðli sínu langtímafjárfestingar er mikilvægt að taka tillit til mögulegrar þróunar markaðarins við framtíðarhönnun kerfisins.

Til að mæta þessu gefum við út kerfisáætlun sem hefur þann tilgang að kynna fyrir hagaðilum áætlanir um þróun meginflutningskerfisins til næstu tíu ára ásamt því að gefa upplýsingar um þær framkvæmdir sem til stendur að framkvæma næstu þrjú árin. Samkvæmt raforkulögum ber að gefa út kerfisáætlun árlega en vegna vandkvæða við samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun fyrir tímabilið 2016–2025 var ekki gefin út kerfisáætlun á árinu 2017.

Orkustofnun synjaði kerfisáætlun 2016–2025 í september síðastliðnum. Áætlunin var sú ítarlegasta sem við höfum gefið út til þessa og er afrakstur víðamikils samráðs um helstu þætti hennar. Ákvörðun um synjun áætlunarinnar byggði aðallega á atriðum er varða lýsingar á einstökum verkefnum á þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunarinnar. Í kjölfar synjunarinnar gaf Orkustofnun út þá yfirlýsingu að kerfisáætlun 2015–2024 væri ennþá í gildi og að þau verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun hennar séu með samþykki Orkustofnunar. Í kjölfar synjunarinnar hefur Landsnet ásamt Orkustofnun unnið að því að finna lausn á þeim atriðum sem út af standa í því augnamiði að tryggja að samþykktarferli næstu kerfisáætlunar gangi betur fyrir sig.

Eins og undanfarin ár var töluverð vinna lögð á árinu í kerfisgreiningar, einkum í tengslum við mögulegar lagningar jarðstrengja í flutningskerfinu, en rannsóknir á þessu sviði verða æ fyrirferðarmeiri. Unnið var að svæðisbundnum kerfisgreiningum, m.a. á Suðurnesjum, Vestfjörðum, NA-landi og höfuðborgarsvæðinu. Kerfisrannsóknir vegna undirbúningsverkefna hafa enn fremur verið töluverðar, enda eru slíkar rannsóknir mikilvægur hluti undirbúningsins. Áfram var unnið að þróun aðferða til að meta umfang áflugs fugla á loftlínur. Sett var af stað tilraunaverkefni til að rannsaka hitamyndun og varmaviðnám í jarðvegi umhverfis jarðstrengi, svo nokkur dæmi séu nefnd um verkefni liðins árs á sviði umhverfisrannsókna.

Undirbúningur fjárfestingarverkefna

Unnið var að fjölbreyttum fjárfestingarverkefnum á árinu en undirbúningur þeirra skiptist m.a. í frumgreiningu kosta, skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og verkhönnun. Undirbúningsverkefnin eru mjög mismunandi að umfangi og er undirbúningstíminn því mjög mismunandi eftir verkefnum og getur staðið allt frá nokkrum mánuðum upp í allmörg ár.

Um 25 undirbúningsverkefni voru í vinnslu á árinu og lauk vinnu við sjö þeirra. Þar má nefna breytingar á tengivirki í Fljótsdal, nýtt tengivirki í byggðalínu í Öræfum, nýja tengingu við Sauðárkrók, tengingu Hvammsvirkjunar og breytingar á tengingu við álverið í Straumsvík.

Samráð

"Almennt hafa verkefni sem sett hafa verið af stað á árinu 2017 og snúa að samráði gengið vel og frumkvæði okkar í að auka vægi þess þáttar í starfseminni vakið jákvæða athygli og eftirtekt."

Á árinu 2017 settum við aukna vigt á samráð og samtal út í samfélagið í heild sinni. Síðustu ár hefur verið unnið að endurmati á stefnu og gildum fyrirtækisins í takt við breytt viðhorf og áherslur í samfélaginu þar sem lykilþættir eru gagnsæi, upplýst umræða og gagnkvæmt samtal og samráð á milli aðila.

Síðla sumars 2017 var ráðinn starfsmaður til fyrirtækisins sem hefur starfstitilinn samráðsfulltrúi en verksvið hans er að halda utan um og móta verk- og vinnulag vegna samráðs. Í byrjun er einblínt á stærri svæðisbundin verkefni en til lengri tíma er áætlað að auka samráð með margs konar hætti á sem flestum sviðum innan fyrirtækisins.

Sett voru af stað verkefnaráð, samráðsvettvangur í þremur verkefnum, Kröflulínu 3, Hólasandslínu 3 og Suðurnesjalínu 2. Þar koma helstu hagsmunaaðilar fyrir utan landeigendur saman með reglulegu millibili. Vinnan í ráðunum hefur gengið vel, haldnir hafa verið fundir reglulega, farnar hafa verið skoðunarferðir og almennt verið góð stemning og andi á þessum nýja vettvangi og því fagnað að Landsnet skuli hafa frumkvæði að því að skapa vettvang fyrir opnar, hreinskiptar umræður sem einkennast af víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.

Haldnir hafa verið upplýsinga- og kynningarfundir með landeigendum vegna þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan, bæði heima í héraði og á höfuðborgarsvæðinu, og á döfinni eru sams konar fundir með íbúum viðkomandi svæða og þeim sem áhuga kunna að hafa á málinu.

Miðlun upplýsinga hefur verið með margvíslegum hætti. Á heimasíðu Landsnets er upplýsingum miðlað í gegnum sérstök svæði hvers verkefnis en verið er að vinna að því að gera heimasíðuna enn aðgengilegri og notendavænni og munu þær breytingar líta dagsins ljós á næstu vikum. Fjöldi greina vegna einstakra verkefna sem og almennt um afmarkaða þætti tengda raforku hefur verið birtur bæði í staðarblöðum á svæðum viðkomandi verkefna sem og á landsvísu.

Almennt hafa verkefni sem sett hafa verið af stað á árinu 2017 og snúa að samráði gengið vel og frumkvæði okkar í að auka vægi þess þáttar í starfseminni vakið jákvæða athygli og eftirtekt. Haldið verður áfram á sömu braut árið 2018, lögð áhersla á að efla og styðja við það sem nú þegar hefur verið sett af stað og leggja drög að enn víðtækara samráði með það að markmiði að ná sem bestri sátt í samfélaginu um framkvæmdir á okkar vegum.


Nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni

Fjárfestingar í flutningskerfinu námu um 75 MUSD  á árinu og var það um 55% hærri fjárfestingarkostnaður en árið 2016. Umfangsmestu framkvæmdirnar voru, eins og árið áður, á Norðausturlandi og nam kostnaður vegna þeirra um 70% alls fjárfestingarkostnaðar ársins. Jafnframt voru viðamiklar nýframkvæmdir í undirbúningi á árinu.

 

Krafla, Þeistareykir og Bakki

Framkvæmdir á Norðausturlandi vegna tengingar Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík og tengingar virkjunarinnar við flutningskerfið voru í fullum gangi á árinu og voru mannvirkin spennusett, eitt af öðru, á haustmánuðum. Framkvæmdirnar, sem eru einar umfangsmestu í sögu Landsnets, fólu í sér byggingu tveggja 220 kV loftlína, Kröflulínu 4, um 33 km loftlínu frá Kröflu að Þeistareykjum, og Þeistareykjalínu 1, um 29 km loftlínu frá Þeistareykjum að Bakka, ásamt þremur nýjum 220 kV tengivirkjum á Þeistareykjum, Bakka og í Kröflu.

Styrking flutningskerfisins á Snæfellsnesi

Undirbúningur og framkvæmdir til styrkingar flutningskerfisins á Snæfellsnesi fóru fram á árinu en truflanir á þessu svæði hafa verið tíðar undanfarin ár. Lagning nýs 66 kV 26 km jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur hófst sumarið 2017 og áætlað að lagningunni ljúki sumarið 2018. Framkvæmdum við nýtt tengivirki í Grundarfirði lauk á árinu og eru framkvæmdir við nýtt virki í Ólafsvík fyrirhugaðar árið 2018.

Tenging stækkaðrar Búrfellsvirkjunar

Unnið var að breytingum á núverandi tengivirki við Búrfell vegna tengingar nýrrar 100 MW. Búrfellsvirkjunar við flutningskerfið en spennusetning hennar er áætluð á sumarmánuðum 2018.

Jarðstrengur í Dýrafjarðargöngum

Samhliða gerð Dýrafjarðarganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar mun Landsnet leggja jarðstreng í göngin sem leysa mun af hólmi hluta Breiðadalslínu 1, þar sem aðstæður eru erfiðar til viðhalds og viðgerða, og þannig auka öryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum. Framkvæmdir við göngin hófust árið 2017 og verður strengurinn lagður í ársbyrjun 2020 en jafnframt er áætlað að vinnu við göngin ljúki síðla það ár.

Breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið

Landsnet hefur undirbúið breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið um tíma í tengslum við byggðaþróun og fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Áætlað er að rífa Hamraneslínu 1 og 2 frá Geithálsi að Hamranesi og Ísallínu 1 og 2 frá Hamranesi að álverinu í Straumsvík. Til að leysa af hólmi þessar línur er fyrirhugað að leggja tvær nýjar 220 kV raflínur, Lyklafellslínu 1 frá fyrirhuguðu nýju tengivirki við Lyklafell að Straumsvík og Ísallínu 3 frá tengivirkinu við Hamranes að Straumsvík. Á árinu var unnið að hönnun, leyfismálum og útboðsgagnagerð fyrir bæði línur og tengivirki og er áætlað að framkvæmdir geti hafist árið 2018.

Kröflulína 3

Undirbúningur fyrir Kröflulínu 3 hefur staðið yfir um alllangt skeið. Línan mun auka stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta og auka þannig öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Á árinu var unnið að hönnun og leyfismálum og lauk mati á umhverfisáhrifum línunnar með áliti Skipulagsstofnunar rétt fyrir árslok 2017. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á árinu 2018.

Ný tenging Sauðárkróks

Unnið var að hönnun, leyfismálum og útboðsgagnagerð vegna nýrrar 66 kV 24 km langrar jarðstrengstengingar milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Tengivirkinu í Varmahlíð verður breytt og nýtt virki byggt á Sauðárkróki fjær íbúðabyggð en núverandi virki. Sauðárkrókur er nú tengdur flutningskerfinu með einungis einni rúmlega 40 ára gamalli tengingu og mun framkvæmdin meira en tvöfalda flutningsgetu og auka afhendingaröryggi á svæðinu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2018.

Tengivirki á Hvolsvelli

Framkvæmdir við nýtt tengivirki á Hvolsvelli voru boðnar út á árinu. Engin tilboð bárust í byggingu tengivirkishúss og hafa því framkvæmdir frestast. Nýtt tengivirki á Hvolsvelli mun leysa af hólmi eldra tengivirki sem upphaflega var byggt árið 1957. 

Ídráttarrör í Norðfjarðargöngum

Í tengslum við lagningu Norðfjarðarganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar voru ídráttarrör fyrir mögulega jarðstrengstengingu lögð í göngin og lauk þeim framkvæmdum á árinu.

Spennuhækkun til Vestmannaeyja

Nýtt tengivirki í Vestmannaeyjum var spennusett á árinu sem síðasti verkhlutinn í spennuhækkun Vestmannaeyjastrengs 3 úr 33 kV í 66 kV. Í apríl kom upp bilun í Vestmannaeyjastreng 3, við tók umfangsmikil viðgerð sem lauk með spennusetningu hans á ný í júní.

Hinn 4. apríl 2017 varð bilun í Vestmannaeyjastreng 3 sem lagður var árið 2013. Bilunin var staðsett neðansjávar um 6,2 km frá Vestmannaeyjum. Í kjölfarið hófst umfangsmesta viðgerð sem Landsnet hefur staðið í. Samið var við fyrirtækið Jan De Nul um að annast meðhöndlun sæstrengsins í viðgerðinni. Kom kapalskip félagsins, Isaac Newton, til Vestmannaeyja 6. júní. Viðgerð lauk 17. júní og var strengurinn kominn í eðlilegan rekstur sama dag.

Styrking tengivirkisins í Mjólká

Nýr 132/66 kV spennir ásamt tilheyrandi rofabúnaði í tengivirkinu í Mjólká var tekinn í notkun í ársbyrjun 2017. Með tilkomu hans eykst flutningsgeta raforku til Vestfjarða og orkuöryggi.

Rekstur, viðhald, viðbragð og neyðarþjónusta Netþjónustu

Starfsstöðvar Netþjónustu Landsnets eru nú þrjár, í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri. Starfsmenn Netþjónustu voru  í lok árs 29. Búið er að ganga frá tveimur ráðningum sem koma til á fyrsta ársfjórðungi 2018.

Rekstrarárið var undir miklum áhrifum af framkvæmdaverkum þar sem verkefni á Norðausturlandi í Kröflu á Þeistareykjum og á Bakka auk framkvæmda í Búrfelli kröfðust mikillar og langrar aðkomu, einnig var aðkoma Netþjónustu nokkur í flestum öðrum framkvæmdaverkum ársins.

Rekstrarverkefni voru nokkur þar sem endurnýjun búnaðar í Mjólká og í nærliggjandi tengivirkjum var eitt af því helsta. Almenn viðhaldsverkefni vegna endurnýjunar eða lagfæringa á eldri búnaði voru einnig fjölmörg.

Nokkuð var um ótímabærar útleysingar og bilanir sem bregðast þurfti við. Ber helst að nefna VM3-strenginn til Vestmannaeyja, verkefni sem tók um tíu vikur frá því að bilun kom upp og þar til strengurinn var spennusettur á ný. Eldingaveður á Suðurnesjum varð til þess að SN1 leysti út og orsakaði straumleysi í 20 til 40 mínútur á öllum Suðurnesjum og hluta Hafnarfjarðar og Garðabæ. Um 40 aðrar útleysingar voru á línum og er helsti orsakavaldur veðurálag, eldingar og hrörnun. Um 40 útleysingar urðu í tengivirkjum og flestar vegna bilunar í búnaði.

Nokkrar breytingar voru gerðar á skipulagi Netþjónustu á haustmánuðum og mun sú vinna halda áfram á nýju ári.

Framkvæmda- og rekstrarsvið auk Netþjónustu hefur undanfarinn sumur verið með sex háskóla- og rafiðnaðarnema sem hafa fengið tækifæri til að kynnast störfum sviðsins.

Einnig hefur sviðið séð um sumarvinnu unglinga hjá Landsneti og sinntu 27 sumarstarfsmenn umhirðu í kringum tengivirki og húsnæði auk fleiri minni verkefna sem þörf var á. Gott orð og gleði einkennir þessa vinnu.

 

 

 

 

Rekstur flutningskerfisins

Rekstur raforkukerfisins var að mörgu leyti talinn erfiður árið 2017. Engar langvarandi bilanir urðu á flutningskerfinu á árinu vegna veðurs en bilun í sæstreng til Vestmannaeyja reyndist hins vegar alvarleg og stóð truflunin yfir í alls 73 daga. Ófyrirséð virkni varnarbúnaðar og mannleg mistök orsökuðu nokkrar af stærstu truflunum ársins ásamt truflunum í kerfi stórnotenda sem höfðu í sumum tilvikum umtalsverð áhrif á flutningskerfið. Truflunum og bilunum fjölgaði á milli ára og raforkuskerðingar á orkuafhendingu til forgangsnotenda vegna fyrirvaralausra truflana hækkaði umtalsvert milli ára eða úr 170 MWst í 1.495 MWst og reiknað straumleysi fór úr fimm mínútum árið 2016 í rúmar 43 mínútur árið 2017.

Orkuafhending til viðskiptavina á skerðanlegum flutningi var vel yfir meðaltalsmælingum síðustu fimm ára og má nefna langvarandi bilun í Vestmannaeyjastreng sem helstu orsök á þeirri aukningu.

 

 

Helstu rekstrartruflanir í flutningskerfinu 

Mælikvarðinn „straumleysismínútur vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana“ hefur verið notaður frá árinu 1987 við mat á áreiðanleika íslenska raforkuflutningskerfisins en það er markmið okkar að straumleysi til forgangsnotenda fari ekki yfir 50 mínútur. Á þessu ári náðist markmiðið, með naumindum þó, og enduðu straumleysismínúturnar í 42,5.

Fyrirvaralausum rekstrartruflunum í flutningskerfinu fjölgaði einungis um tvær bilanir milli ára og fóru í 74 rekstrartruflanir en aftur á móti fjölgaði bilunum um fimm milli ára og enduðu í 89 bilunum fyrir árið 2017. Þar af eru sex bilanir þegar kerfisvarnir eru að vinna samkvæmt fyrirfram ákveðinni hegðun búnaðar.

Skerðingar notenda á skerðanlegum flutningi eru ekki taldar til straumleysismínútna og eru því ekki taldar með í þessu grafi

Skerðing á orkuafhendingu vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana í flutningskerfinu nam samtals 1.495 MWst, sem samsvarar um 42,5 straumleysismínútum og hefur ekki verið hærri síðan árið 2012.

Það skal áréttað að mælikvarðinn „straumleysismínútur til forgangsorkunotenda“ gefur ekki heildarmynd af áreiðanleika flutningskerfisins sjálfs. Til að átta sig á þeirri mynd þarf að skoða magn varaafls sem er keyrt í truflunum, ásamt beitingu raforkuskerðinga til notenda sem eru á skerðanlegum flutningi.

Fyrirvaralausar rekstrartruflanir eru flokkaðar skv. alvarleikaflokkun og gefur litur til kynna stig hvers atburðar. Yfirlit yfir helstu truflanirnar sem ollu skerðingu á afhendingu rafmagns til viðskiptavina má sjá í Frammistöðuskýrslu 2017.

Afhendingaröryggi flutningskerfisins

Með aukinni áraun á flutningskerfið og fjölgun rekstrartruflana hefur bæði varaaflskeyrsla farið vaxandi og skerðingar til notenda á skerðanlegum flutningi. Mörg dæmi eru um hvernig snjallnetslausnir og snör viðbrögð stjórnstöðvar hafa náð að lágmarka eða afstýra alfarið straumleysi til forgangsnotenda og náðust markmið síðustu ára um afhendingaröryggi, þrátt fyrir mikinn fjölda truflana. Ef við hefðum ekki aðgang að varaaflskeyrslu né gætum skert notendur á skerðanlegum flutningi væru straumleysismínútur fyrir árið 2017 mun fleiri, eða um 519 mínútur en ekki 42,5 mínútur eins og mælingar sýna.

Afltoppur ársins

Hæsti afltoppur innmötunar á árinu mældist 15. desember og var hann 2.350 MW sem er 2,57% hærra gildi en árið áður. Heildarúttekt úr flutningskerfinu nam 18,1 TWst sem er 4,2% hækkun milli ára. Flutningstap í kerfinu nam 2,02% af innmötun, eða samtals 373 GWst.

Yfir öryggismörkum stóran hluta ársins 

Stöðugt eftirlit er í stjórnstöðinni okkar með aflflutningi um skilgreind flutningssnið í kerfinu (sjá kort) til að lágmarka áhrif truflana í kerfinu án þess að ganga á flutningsgetuna.

Skilgreind flutningssnið ásamt öryggismörkum
 
LNDSKORTBREUTA_path_2_litlagad.png

"Til að tryggja rekstur raforkukerfis, sem sér öllum notendum á landinu fyrir rafmagni, er nauðsynlegt að styrkja innviði þess." 

Þegar truflanir verða í kerfinu eykst hætta á straumleysi ef flutningur um snið er nálægt eða yfir öryggismörkum (80%). Flutningskerfið var rekið yfir öryggismörkum stóran hluta ársins 2016, eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan, en það sýnir orkuflutning um átta snið fyrir allt árið. Við slíkar aðstæður þarf stjórnstöðin okkar að fara fram á breytingar á vinnsluáætlunum framleiðenda, þ.e. hvar rafmagn er framleitt á landinu og grípa einnig til viðvarandi skerðinga á tilteknum landsvæðum. Rekstur af þessu tagi hefur því í för með sér óhagræði fyrir alla sem tengjast flutningskerfinu.

Mótvægisaðgerðir

Stjórnstöðin er orðin afar háþróuð tæknilega þegar kemur að bættri orkustjórnun og rekstri flutningskerfisins, enda starfsfólkið sérþjálfað í vinnubrögðum til að meta stöðu kerfisins og rekstraráhættu samkvæmt fyrirfram skilgreindum ferlum.

Á árinu fór mikil vinna í að móta framtíðarfyrirkomulag snjallnets hjá okkur. Slíkar lausnir tryggja mjög hraðvirka skerðingu hjá notendum sem eru með samninga um skerðanlegan flutning. Þær bæta álagsjafnvægi milli svæða með álagsstýringu álvera og stýra uppskiptingu flutningskerfisins í minni einingar í truflunum til að tryggja rekstraröryggi notenda. Samskiptaleiðir voru m.a. endurskilgreindar með tilliti til mikilvægis og búnaður var uppfærður til að mæta auknum kröfum um stýringu og öryggi.

Mikil vinna fór einnig í undirbúning nýrra verkefna sem komu til framkvæmda árið 2017. Þar má nefna snjallnet á Suðurlandi í tengslum við spennuhækkun til Vestmannaeyja, snjallnet á Reykjanesi, álagsstýringu stórnotenda á suðvesturhorninu og uppfærslu á snjallnetsbúnaði á Austurlandi í tengslum við evrópska rannsóknarverkefnið Migrate.

Þá eru í undirbúningi hraðvirkari stýringar framleiðslueininga í truflanatilvikum, auk þess sem stöðug veðurvöktun og forvarnir í samstarfi við viðskiptavini eiga að tryggja markviss viðbrögð til að lágmarka áhrif veðurtruflana á raforkuflutninga.

Nauðsynlegt að styrkja flutningskerfið

Mikil aukning í keyrslu varaafls í rekstrartruflunum og beiting skerðinga gagnvart notendum á skerðanlegum flutningi sýnir með skýrum hætti hvert stefnir og að flutningskerfið er víða yfirlestað. Ef ekki væri til staðar aðgangur að varaafli og heimildir til skerðinga væri afhendingaröryggi flutningskerfisins langt fyrir neðan þau viðmið sem almennt eru notuð til að meta áreiðanleika flutningskerfa. Til að tryggja rekstur raforkukerfis, sem sér öllum notendum á landinu fyrir rafmagni, er nauðsynlegt að styrkja innviði þess. Snjallnetslausnir og aukin keyrsla varaafls eru tímabundnar lausnir, plástrar sem hvorki auka flutningsgetu né áreiðanleika til langs tíma.


 


Upplýsingatækni og fjarskipti

Upplýsingatækni og fjarskipti eru sífellt mikilvægari þættir í rekstrinum og raforkuflutningskerfisins í heild. Á árinu 2017 voru lykilkerfi uppfærð, fjarskipti bætt, öryggi hert og nýjar útstöðvar í orkustjórnkerfi félagsins teknar í notkun.

Hugbúnaðarkerfi fyrir reglunaraflsmarkað

Þróun nýs hugbúnaðarkerfis fyrir reglunaraflsmarkað lauk í upphafi árs 2017 og var kerfið tekið í notkun í framhaldinu. Vinna við kerfið, sem heldur utan um tilboð í raforku og sendir stýrigildi í orkustjórnkerfi Landsnets til að halda jafnvægi í raforkukerfinu, hófst árið 2015. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og var samið við hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri.

Öryggi og fjarskipti

Mikil áhersla er lögð á að tryggja öryggi hugbúnaðar- og upplýsingatæknikerfa okkar. Gerð var kröfulýsing fyrir upplýsingaöryggi stjórnbúnaðar tengivirkja. Allur nýr stjórnbúnaður á að uppfylla kröfurnar. Haldið var námskeið um öryggismál orkustjórnkerfa og stjórnbúnaðar fyrir sérfræðinga í upplýsingatækni og stjórn- og varnarbúnaði.

Haldið var áfram með uppbyggingu á fjarskiptakerfi Orkufjarskipta. Þeistareykir og Bakki voru tengdir með ljósleiðara við fjarskiptakerfi Orkufjarskipta. Ljósleiðari var lagður frá Blöndu í tengivirkið í Hrútatungu. Er það áfangi í hringtengdu ljósleiðarakerfi Orkufjarskipta sem kallast áttan.

Orkustjórnkerfið okkar

Útstöð orkustjórnkerfisins í Hamranesi var endurnýjuð á árinu og stjórnbúnaður í nýjum tengivirkjum á Bakka, Þeistareykjum, Kröflu, Grundarfirði og Vestmannaeyjum tengdur kerfinu. Einnig var stjórnbúnaður endurnýjaður í tengivirkjum í Hrauneyjafossstöð og Búrfelli sem tengist orkustjórnkerfinu.

Skrifað var undir samning við General Electric í Frakklandi um uppfærslu á orkustjórnkerfi Landsnets. Verkið hófst í júní 2017 og á að ljúka í ágúst 2018. Tölvubúnaður og stýrikerfi verða af nýjustu gerð. Víðsjárkerfi (PhasorPoint) verður hluti af orkustjórnkerfinu eftir uppfærsluna. Ýmis önnur ný virkni verður í uppfærða kerfinu. Mögulegt verður að tengjast orkustjórnkerfum annarra orkufyrirtækja og skiptast á upplýsingum í rauntíma.


Nýsköpun og rannsóknir

GARPUR

"Okkar þáttur, sem snýr að því að greina áreiðanleika kerfisins í rauntíma,"

Við höfum verið virkur þátttakandi í evrópska rannsóknarverkefninu GARPUR sem miðar að því að beita líkindafræðilegum aðferðum við að meta áreiðanleika raforkukerfa með það að markmiði að hámarka samfélagslegan ávinning kerfanna. Verkefnið er til fjögurra ára og hlaut 1,2 milljarða króna styrk úr rannsóknaráætlun 7. rammaáætlunar ESB árið 2013 og á að hraða þróun raforkukerfa í Evrópu svo þau geti tekist betur á við aukna innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Síðari hluti verkefnisins, þar sem áhersla er lögð á prófanir á nýrri aðferðafræði með þátttöku flutningsfyrirtækja í Evrópu, stendur nú yfir og stýrum við þeirri vinnu. Okkar þáttur, sem snýr að því að greina áreiðanleika kerfisins í rauntíma, er kominn mjög langt. Greining okkar er jafnframt mjög ítarleg, þar sem stuðst er við rauntímamódel raforkukerfisins, ásamt gögnum um áreiðanleika, kostnað notenda af raforkuskorti og veðurgögn í rauntíma.

Markmið með GARPUR-verkefninu er að greina áreiðanleika raforkuflutningskerfa á öllum stigum, þ.e. við hönnun, viðhald og rekstur, til að fá heildstæða mynd af forgangsröðun þannig að flutningsfyrirtæki verði betur í stakk búin til að takast á við þær miklu breytingar sem eiga sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og vinna að frekari þróun þeirra.

Migrate

Við erum einnig þátttakandur öðru evrópsku rannsóknarverkefni, MIGRATE, sem styrkt er úr Horizon 2020 rannsóknarsjóði Evrópusambandsins. Heildarstyrkur verkefnisins er um 2 milljarðar króna og er til fjögurra ára. Alls taka 11 flutningsfyrirtæki, tveir framleiðendur og 11 háskólar þátt í verkefninu ásamt fjölda undirverktaka. Tilgangur verkefnisins er að þróa aðferðafræði og tækninýjungar til að auka rekstraröryggi, sveigjanleika og flutningsgetu í raforkukerfum í Evrópu sem styðja við aukningu á endurnýjanlegum orkugjöfum.


Með auknu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í raforkukerfum sem notast við kraftrafeindatækni minnkar tregðuvægið í kerfinu og því verður erfiðara að takast á við svipula hefðun vikni núverandi varnarbúnaður og gæði rafmagns í raforkukerfinu. [Okkar þáttur í verkefninu snýr að þróun og frumprófunum á nýjum víðstýringum til að takast á við vandamál í raforkukerfum með lágt tregðuvægi.


Fyrri hluti verkefnisins hefur verið að þróa nýjar víðstýringar með að nýta þá innviði í víðsjárkerfinu sem Landsnet hefur verið að byggja upp síðasta áratuginn. Nú þegar seinni hluti verkefnisins er að hefjast höfum við fengið til liðs við okkur hagsmunaaðila til að frumprófa þessar stýringar, sem meðal annars fela í sér hraða álagsstýringu álvera, hraðari niðurkeyrslu vatnsaflsvéla og hraða útleysingu skerðanlegra notenda. Markmiðið er að sýna fram á að hægt sé að takast á við þau vandamál sem fylgja auknu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa með aflrafeindatækni, með því að hanna og þróa hraðvirkar víðstýringar til að auka rekstraröryggi og sveigjanleika í raforkukerfumÖryggi, umhverfis- og gæðamál

" Okkar sýn er að ekkert slys verði í starfseminni. Öryggismál eru mikilvæg í okkar augum og ávallt í forgangi, enda ekkert mikilvægara en að starfsmenn komist heilir heim frá vinnu. Sterk öryggisvitund hefur verið að festast í sessi hjá starfsmönnum Landsnets og árangur starfsmanna fer stöðugt vaxandi."
Við erum eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi með öryggisstjórnun sem tekur mið af alþjóðlega öryggisstaðlinum OHSAS 18001.

OHSAS 18001 staðallinn er kröfulýsing á sviði öryggis- og vinnuumhverfisstjórnunar. Fyrirtæki sem starfa skv. staðlinum þurfa sífellt að vinna að umbótum og eru líklegri en önnur til að ná árangri í sinni starfsemi.

Staðallinn á meðal annars að tryggja að öryggis- og vinnuumhverfismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar, framkvæmdir, rekstur, val á verktökum og kaup á vöru og þjónustu vegna starfseminnar. Sömu kröfur til öryggismála eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila.

Árangur 2017


Eitt fjarveruslys varð hjá starfsmanni okkar á árinu og tvö fjarveruslys verktaka vegna framkvæmda- og fjárfestingarverkefna. Öll voru slysin minniháttar, ein fingurmeiðsl, eitt fallslys og eitt högg frá borvél.

Þjálfun starfsfólks okkar í öryggismálum tekur mið af þeim áhættuþáttum sem starfsmenn eru útsettir fyrir. Árangur starfsmanna má að miklu leyti rekja til markvissrar þjálfunar og mikillar þekkingar sem skilar sér í góðri liðsheild. Á árinu fóru 941 klukkustundir í þjálfun vegna öryggismála.

Helstu verkefni á sviði öryggismála

Ný verkefni voru unnin á árinu sem höfðu það að markmiði að styðja við öryggismenningu starfsmanna. Þar má helst nefna fræðsluáætlun byggða á áhættumati og útsettum áhættum starfsmanna. Nýtt verklag var tekið upp við öruggan undirbúning verka og framkvæmda samkvæmt hugmyndafræði LEAN.

Einnig voru haldin námskeið og fræðsla til að auka skilning á því sem þarf til svo öryggismenning skapist innan fyrirtækisins. Öryggismenning er lærdómsmenning og þannig leggjum við mikla áherslu á að tilkynningar og upplýsingar um hættutilvik og hættulegar aðstæður berist til stjórnenda og ábyrgðamanna svæða og verkefna til að hægt verði að framkvæma viðeigandi umbætur.

Netöryggismál eru mikilvægur öryggisþáttur í rekstraröryggi Landsnets. Við tókum þátt í að skipuleggja samnorræna netöryggisæfingu. „Black Screen 2017“, sem var haldin í Osló 1. og 2. nóvember 2017. 90 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum tóku þátt í sjálfri æfingunni og þar af voru 12 frá Íslandi.

Við verkefnastýrðum og skrifuðum skýrslu fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samræmi við „Aðgerð 17“: Stefna í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017. Mat á kröfum til að til sé nægjanleg raforka til þess að mikilvægir innviðir virki eins og kostur er á neyðartímum.

Umfang


Mat á nauðsynlegum viðbúnaði til þess að tryggja öryggi raforkukerfisins og gerð viðbragðsáætlunar vegna truflana og langvarandi rofs á raforkudreifingu.

Skilgreining á lágmarkskröfum um öryggi og virkni raforkumannvirkja.

Gerð áætlunar um vernd virkjana, spennistöðva, mastra og dreifikerfis vegna skemmdarverka.

Endurskoðun og áframhaldandi uppbygging á neyðarsamstarfi vegna raforkukerfisins.

Neyðarstjórn Landsnets


Hjá Landsneti er starfandi neyðarstjórn. Helstu verkefni ársins voru að innleiða nýtt skipulag samkvæmt SÁBF-neyðarstjórnkerfi með það að markmiði að samræma verkferla neyðarstjórnunar við verkferla almannavarna. Landsnet sér um rekstur meginflutningkerfis raforku þar sem öryggi kerfisins er mikilvægt fyrir rekstur samfélagsins í held sinni. Náið samstarf og samskipti eru við öll fyrirtæki sem starfa í raforkugeiranum um neyðarvarnir og viðbragðsáætlanir ásamt reglubundnum æfingum um viðbrögð í vá.

Neyðarsamstarf raforkukerfisins (NSR)


Við förum með forustuhlutverk í að leiða samstarf verði alvarlegur skortur á raforku eða straumrof til notenda, eða ef mikil vá fyrir dyrum. Þjóðfélagið getur beinlínis lamast og áhrifin á þjóðarhag geta orðið veruleg. Því er nauðsynlegt að skilgreina vel allt viðbragðsferli í rekstri raforkukerfisins, bæði hjá framleiðendum raforkunnar, þeim sem flytja hana eða dreifa henni, sem og hjá stórum raforkunotendum. Liggi slík skilgreining fyrir er hægara að bregðast við alvarlegum áföllum.

Lög, reglugerðir og staðlar kveða á um hvernig rekstraröryggis skuli gætt í rekstri raforkuframleiðenda og þeirra fyrirtækja sem flytja raforkuna og dreifa henni. Sama er uppi á teningnum um stóra raforkunotendur. Að auki gera aðilar samninga sín á milli um afhendingaröryggi raforkunnar.

Þátttakendur í NSR eru stærstu raforkuvinnslufyrirtæki landsins, raforkuflutningur og dreifing, Orkustofnun, Samorka, stóriðjufyrirtæki og ríkislögreglustjóri. Einkum er lögð áhersla á samræmingu viðbragða í vá og öflugt upplýsingaflæði milli aðilanna um rekstrarleg öryggismálefni, en einnig á samræmingu viðbragðsáætlana og samræmda hugtakanotkun.

Á árinu hefur NSR komið sér upp sameiginlegum samskiptaleiðum sem samanstanda af rafrænu verkefnasvæði þátttakenda á workplace, fjarskipti með TETRA og SAReye-aðgerðagrunnur í vá. Meginmarkmiðið með sameiginlega skilgreindum samskiptaleiðum er að hafa ferli fyrir upplýsingar um mikilvægan búnað fyrir raforkukerfið sem aðilar gætu lánað hver öðrum í neyðartilfellum. Einnig er þar að finna upplýsingar um tengiliði fyrirtækjanna við NSR, mannauð, tól og tæki sem nýst gætu í vá eða við alvarleg áföll í raforkukerfinu. NSR er ekki viðbragðsaðili í vá enda hefur það enga lagastoð til að grípa inn í slík ferli. Aftur á móti er markmið og tilgangur NSR að nýtast mjög vel í að halda sameiginlegar æfingar viðbragðsaðila og er um leið góður vettvangur til miðlunar á þekkingu og aðstoð sé þess óskað.

Norræn samvinna um neyðarsamstarf og rekstraröryggi (NordBER)


Landsnet á í samstarfi við hin Norðurlöndin um rekstraröryggi raforkukerfa, viðbrögð við alvarlegum áföllum í raforkukerfum og gagnkvæma aðstoð landanna í vá. Samstarfið hefur eflst til muna undanfarin ár, ekki síst vegna alvarlegra áfalla í raforkuflutningskerfum aðildarlandanna.

NordBER er ætlað að efla þekkingu hagsmunaaðila hvað varðar skipulag, viðbúnað og framkvæmd neyðarviðbragða í raforkukerfinu og að skipuleggja gagnkvæma aðstoð þeirra í vá.

Aðildarlöndin skiptast á um að fara með formennsku í NordBER tvö ár í senn og fer nú Danska orkustofnunin með formennsku NordBER og hefur lagt mikla áherslu á að efla samvinnuna.

Gæðamál

 Við leggjum áherslu á faglega og örugga starfsemi. Því er mikilvægt fyrir fyrirtækið að styðjast við alþjóðlega stjórnunarstaðla í starfseminni. Landsnet er með vottað gæðastjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 9001 sem tekur á þáttum í starfsemi fyrirtækisins. Samþætt og vottað stjórnunarkerfi Landsnets nær yfir stjórnun á gæða-, umhverfis- og rafmagnsöryggismálum og öryggi vinnuumhverfis. Samofin stjórnun þessara málaflokka skilar sér í betra samræmi vinnuferla og skilvirkari stjórnun fyrirtækisins.

Gæðastefna

Gæðastefnan okkar leggur áherslu á markmið félagsins sem er að þjóna hagsmunum íslensks samfélags. Rafmagn er ein af undirstöðum atvinnulífs og hluti af daglegu lífi fólks. Mikilvægt er því að Íslendingar hafi öruggt aðgengi að rafmagni í gæðum eins og best gerist ásamt því að gæði upplýsinga séu ítarleg og skiljanleg. Mikilvægur þáttur í starfseminni er að brugðist sé hratt við þjónustubresti eða neyðarástandi. Stöðugar umbætur og eftirfylgni ná til allrar starfseminnar þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og kröfur, bæði lagalegar og samfélagslegar væntingar sem tengjast starfseminni.  Stuðlað er að því að minnka áhættur í rekstri og traust er aukið. Samskipti Landsnets einkennast af gildum fyrirtækisins um ábyrgð, virðingu og samvinnu. Sömu kröfur til umhverfismála eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila og við setjum okkur hjá Landsneti.

Vottanir

Gæðakerfið er vottað af óháðum aðila og er kerfið tekið út tvisvar á ári.

 Fyrirtæki með ISO 9001 vottun þurfa sífellt að vinna að umbótum ásamt því að þróa og innleiða kerfi til að bæta ánægju viðskiptavina með því að mæta kröfum þeirra. Staðallinn á meðal annars að tryggja að hugað sé að umbótum í öllum framkvæmdum, rekstri og hjá verktökum.

 Fyrirtæki með ISO 14001 vottun þurfa sífellt að vinna að umbótum á mikilvægum umhverfisþáttum og kröfum um að markmiðum sé náð. Staðallinn á meðal annars að tryggja að hugað sé að umhverfismálum í öllum framkvæmdum, rekstri og hjá verktökum.

 Fyrirtæki sem starfa samkvæmt OHSAS 18001 staðlinum þurfa sífellt að vinna að umbótum á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Staðallinn á meðal annars að tryggja að hugað sé að öryggis- og heilbrigðismálum í öllum framkvæmdum, rekstri og hjá verktökum.

Umhverfis- og loftslagsmál

 "  Rafmagn er ein af undirstöðum atvinnulífs og hluti af daglegu lífi fólks. Mikilvægt er því að Íslendingar hafi öruggt aðgengi að rafmagni í gæðum eins og best gerist ásamt því að gæði upplýsinga séu ítarleg og skiljanleg."

 Landsnet er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001. Fyrirtækið er með umhverfisstefnu og hefur unnið markvisst að því að draga úr áhrifum af starfseminni, þar með talið með losun gróðurhúsalofttegunda og minnkun úrgangs. Markviss stýring er á umhverfisþáttum. Þar má nefna að tryggja að stýrt sé þeim áhættum sem geta komið upp í rekstri sem getur haft áhrif á umhverfið, val á verktökum tekur mið af umhverfiskröfum sem settar eru, kaup á vörum ásamt fjárfestingum. Sömu kröfur til umhverfismála eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila og við setjum okkur hjá Landsneti. Unnið er markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum og mikilvægum umhverfisþáttum er stýrt og þeir vaktaðir. Umhverfisstefna var innleidd á árinu þar sem meðal annars er lögð áhersla á frágang framkvæmda með tilliti til umhverfismála, vöktun kolefnisspora frá starfseminni og greiningu umhverfisatvika.

 Fylgst er með losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs með skipulögðum hætti og hefur fyrirtækið sett sér markmið og mælikvarða til að fylgjast með þróun losunar og úrgangsmyndun. Árlega er upplýst um árangur miðað við markmið. Landsnet er í hópi þeirra 103 íslensku fyrirtækja sem skuldbundu sig haustið 2015, í aðdraganda 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, til að setja sér markmið í loftlagsmálum og fylgja þeim eftir með aðgerðum.

 Fyrirtækinu er umhugað um að minnka sýnileika raforkumannvirkja sem tengjast flutningskerfinu. Sérstaklega hefur verið horft til þess við hönnun nýrra tengivirkja og umhverfis þeirra að sýnileika mannvirkjanna sé haldið í lágmarki og það haft að markmiði að mannvirkin falli sem best að aðliggjandi umhverfi. Loftlína hefur mun meiri sjónræn áhrif á umhverfi sitt en jarðstrengur, enda geta loftlínur verið sýnilegar í allt að 5 km fjarlægð frá línustæði en sýnileiki þeirra er mjög háður því landslagi sem þær liggja um. Jarðstrengur veldur einnig sjónrænum áhrifum, þótt í minna mæli sé, enda má gera ráð fyrir að lagningu hans fylgi rask, en spennustig ræður miklu um á hversu breiðu belti rask verður. Í samanburði verður einnig að taka tillit til sérstaks búnaðar vegna langra strengja. Niðurrif loftlína veldur litlu raski og skilar landi í svipuðu ástandi og fyrir línulögn. Ef fjarlægja þarf jarðstreng og farga honum veldur það svipuðu raski og lögn hans þar sem grafa þarf ofan af honum. Þetta á einnig við um viðhald strengja og viðgerðir.

 Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda felst í að meta og upplýsa um líkleg áhrif tiltekinna framkvæmda á umhverfið. Áhrifin eru greind, vægi þeirra metið og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim. Samkvæmt lögum skal byggja leyfi til viðkomandi framkvæmdar á niðurstöðu umhverfismatsins. Umhverfisúttektir eiga sér stað eftir að framkvæmdir mannvirkja hafa átt sér stað þar sem greint er hvernig gekk að framkvæma út frá umhverfismatinu og hvort umbóta sé þörf. Brugðist er við öllum athugasemdum.

 Engin umhverfisóhöpp

 Engin alvarleg umhverfisóhöpp urðu á árinu vegna starfseminnar. Umhverfismál eru hluti af útboðsögnum allra fjárfestingarverkefna og við framkvæmdalok fara fram úttektir með þátttöku hagsmunaaðila, m.a. fulltrúum eftirlitsstofnana, landeigenda og sveitarfélaga, þar sem farið er yfir frágang og viðskilnað með tilliti til umhverfismála.

Kolefnisspor

Kolefnisspor er mælikvarði á losun gróðurhúslofttegunda sem tengist starfseminni og Landsnet hefur sett það sem markmið að minnka kolefnisspor frá starfsemi sinni. Lagt er áherslu á flokkun úrgangs hjá félaginu, varaaflskeyrsla verði lágmörkuð, flutningstöp sem minnst og leki af einangrunargasi sé eins lítill og mögulegt er. Stöðugar umbætur eiga sér stað þar sem haldið er utan um þessa áhrifaþætti á losun koldíoxíði (CO2) frá starfseminni

Miða við íslenska raforkukerfið þá hækkar kolefnisspor Landsnets um rúm 17% á milli 2016 og ársins 2017 og var ígildi 6.582 tonna af koldíoxíði (CO₂) samanborið við 5.464 árið 2016. Hækkunin stafar helst af auknum leka á einangrunargasinu brennisteinshexaflúoríði (SF₆), sem notað er sem neistavari í rafbúnaði í tengivirkjum. Flokkun úrgangs hefur gengið mjög vel á árinu 2017 þar sem flokkunarhlutfallið fór úr 59% árið 2016 í 81% árið 2017 og minnkar losunin því um 24% eða um 2,5 tonn. Auknar flugferðir starfsmanna innanlands stafar af því mikla framkvæmdaári sem var árið 2017 þar sem flug til Húsavíkur og Akureyrar fjölgar mikið. Framleiðsla varaafls með dísilvélum var umtalssvert minni en árið áður og einnig eldsneyti á bíla. Flutningstöpin hafa hækkað milli ára.