Viðskiptavinir 

"Mikil þróun á sér stað á raforkumarkaði og viðskiptaumhverfi fyrirtækja er síbreytilegt og kvikara en þekkst hefur."

Unnið hefur verið að úrbótum til að auka þjónustu við viðskiptavini með nýjum og bættum þjónustuferlum og nýrri nálgun á aðgengi upplýsinga á vefnum okkar. Markmiðið er að þjónustuferlið taki heildstætt á þeim erindum sem koma frá viðskiptavinum okkar og tryggi þeim réttan farveg og úrvinnslu.

Einnig hefur verið unnið að því að upplýsa eða taka umræðu um stöðu mála og þróunar fyrr í ferlinu. Það er til að stuðla að umræðum við aðila á raforkumarkaði og fá sem besta sýn á þarfir hans.

Þróun á viðskiptaumhverfi

Mikil þróun á sér stað á raforkumarkaði og viðskiptaumhverfi fyrirtækja er síbreytilegt og kvikara en þekkst hefur. Þessum aðstæðum fylgja margar áskoranir ásamt kröfum um hraða í svörum og framkvæmdum en einnig meiri óvissa og áhætta.

Mikilvægt er fyrir okkur að bregðast við þessum áskorunum og koma til móts við breytta tíma en á sama tíma að uppfylla skyldur okkar, lágmarka áhættu og halda uppi gæðum í afhendingaröryggi og þjónustu.

Aukinn áhugi á tengingu nýrra stórnotenda með breyttu viðskiptamódeli vindlunda og smávirkjana við flutningskerfið eykur þörf á auknum sveigjanleika í flutningskerfinu en einnig þarf að vera skýrt og opinbert ferli við að tengjast því.

Á árinu höfum við unnið eftirfarandi þróun á viðskiptaumhverfinu okkar til að bregðast við þörfum markaðarins:

Möguleiki er fyrir vindmyllur að tengjast flutningskerfinu með uppfærslu á netmála um tæknilegar kröfur til vinnslueininga (D1). Markmið netmálans er að setja kröfur fyrir vindlundi og virkjanir sem eru frá 1,5 MW og tengjast flutningskerfinu.
Netmálinn hefur verið sendur ráðuneytinu til staðfestingar og mun taka gildi eftir að brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem berast.

Gagnsæi í kostnaðarákvörðunum vegna tenginga nýrra virkjana og stórnotenda við flutningskerfið með nýjum netmála um kerfisframlag (D3).
Netmálinn hefur verið sendur ráðuneytinu til staðfestingar og mun taka gildi eftir að brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem berast.

Aukið aðgengi notenda að kerfisþjónustu svo hægt sé að auka samkeppni á markaði og sveigjanleika í flutningskerfinu. Í dag eru það eingöngu virkjanir sem geta boðið slíkt. Markmið endurskoðunar á netmálanum er að tryggja aukið aðgengi mismunandi viðskiptavina okkar. Netmálinn er sem stendur í umsagnarferli hjá viðskiptavinum okkar og er áætluð gildistaka á seinni hluta ársins 2018.

Vinna við endurskoðun á gjaldskrárstrúktúr Landsnets hófst á árinu. Núverandi uppbygging hefur verið óbreytt frá stofnun Landsnets árið 2005 en umhverfið er að breytast hratt og margir drifkraftar, innan lands sem utan, hafa knúið fram þörf á endurskoðun. Má þar nefna þætti eins og aðlögun að evrópskri löggjöf, hreyfingar á orkumarkaði, hugmyndir um orkustefnu, breytingar á viðskiptaumhverfi og stærð og eðli viðskiptavina. Markmiðið er að skipta verkefninu upp í hluta og að vinna með aðilum orkumarkaðarins og meta þörfina í fyrsta hluta, sem áætlað er að ljúki vorið 2018.

Helstu viðskiptavinir okkar eru raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku, stórnotendur og sölufyrirtæki og skiptust þeir þannig í árslok:

Dreifiveitur

RARIK
HS Veitur
Norðurorka
Veitur
Orkubú Vestfjarða
Rafveita Reyðarfjarðar

Framleiðendur

Landsvirkjun
ON
HS Orka
Orkusalan
Fallorka
Íslensk orkumiðlun

Stórnotendur

ADC
Verne Holding
United Silicon
Becromal
ISAL
Alcoa
Elkem
Norðurál

Netmálar

Unnið var að breytingum á skilmálum um tæknilegar kröfur til vinnslueininga (D1) á árinu, ásamt frumgerð að netmála um kerfisframlag (D3). Þeir voru kynntir fulltrúum í viðskiptamannaráði Landsnets í október 2016 og sendir í umsagnarferli í framhaldinu. Báðir netmálarnir munu taka gildi á árinu 2017.

Breytingar á netmála D1 fela í sér mikilvæga aðlögun að fjölbreyttari tegundum vinnslueininga, s.s. vindmyllum. Einnig var horft til tæknilegra krafna og vinnslueininga sem eru undir 10 MW og hafa val um að tengjast flutningsnetinu okkar beint.

Skilmáli okkar um kerfisframlag er nýr og til kominn að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um gagnsæi í kostnaðarákvörðunum vegna tenginga nýrra virkjana eða notenda við flutningskerfið. 

 

 


Upprunaábyrgðir raforku

Útgáfa upprunaábyrgða, eða svokallaðra grænna skírteina sem staðfesta að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, jókst um þriðjung milli áranna 2015 og 2016 og var alls um níu milljón skírteini, sem er svipað magn og gefið var út árið 2014.

Á árinu voru teknar til endurvottunar þær framleiðslustöðvar sem fengu fyrst vottun árið 2011 og var ákveðið að endurvottunin væri endurgjaldslaus, ef engar breytingar hefðu orðið á búnaði eða rekstri stöðvanna. Jafnframt var ákveðið að hækka verðskrá Landsnets vegna umsýslu með skírteinin um 4%. Hún tekur gildi frá ársbyrjun 2017 en breytingar voru síðast gerðar á verðskránni í maí 2014.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróunina í útgáfu upprunaskírteina í MWst, fjölda afskráðra skírteina í MWst og verðlagsþróun þeirra.